Ætti NATO að gegna pólitískara hlutverki?
Kappræða: "Ætti NATO að gegna pólitískara hlutverki?"
- Icelandic
- Bulgarian
- Czech
- Danish
- German
- Greek
- English
- Spanish
- Estonian
- French
- Hungarian
- Italian
- Lithuanian
- Latvian
- Dutch
- Polish
- Romanian
- Russian
- Slovenian
- Turkish
- Ukrainian
Espen Barth Eide er forstjóri alþjóðastjórnmáladeildar norsku Alþjóðamálastofnunarinnar í Osló.
Frédéric Bozo er prófessor við háskólann í Nantes og stýrir rannsóknum á vegum frönsku Alþjóðamálastofnunarinnar í París með tengslin yfir Atlantshafið sem sérsvið.
Ágæti Frédéric,
-Nú þegar allt það sem gengið hefur á milli Atlantshafsríkjanna vegna Íraks virðist loks að baki er kominn tími til að skiptast í rólegheitum á skoðunum um framtíð tengslanna milli Evrópu og Norður-Ameríku og þátt NATO í því máli. Ummæli kanslara Þýskalands, Gerhard Schröder, á Wehrkunde ráðstefnunni í Munchen í ferbrúar og ummæli sem fylgt hafa í kjölfarið beggja vegna Atlantshafsins hafa sett upp á borðið spurninguna hvað Atlantshafsbandalagið snúist um. Það er gott, því það er öllum til góðs að gegnsæ, víðtæk og uppbyggileg skoðanaskipti fari fram. Tengslin yfir Atlantshafið á 21. öld verða augljóslega öðruvísi en þau voru á síðari helmingi 20. aldarinnar. En „öðruvísi” þýðir ekki endilega „verri”.
-NATO er afar farsælt bandalag sem er í tilvistarkreppu um þessar mundir, sem ólíklegt er að það komist út úr alveg á næstunni. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem bandalagið hefur efast um grundvallarforsendur sínar. Þegar Frakkland dró sig út úr sameiginlegu hernaðarskipulagi NATO árið 1966 voru það jafnörlagaþrungin tímamót, sem leiddu til þess að ári síðar var gefin út Harmel skýrslan um framtíðarverkefni bandalagsins . Fyrir fimmtán árum hleyptu bæði upplausn Varsjárbandalagsins og Sovétríkjanna af stað skoðanaskiptum um það hvort enn væri þörf á pólitísku og hernaðarlegu bandalagi sem tengdi Evrópu og Norður-Ameríku. Þessi skoðanaskipti leiddu til þeirrar ákvörðunar að „leggjast í herleiðangra” (í stað þess að leggja upp laupana) sem leiddi til þess að mestan hluta tíunda áratugarins var bandalagið að sinna þremur stórum verkefnum á mörkum stjórnmála og hermála. Þar var um að ræða friðargæslu og friðunaraðgerðir á Balkanskaga, undirbúning nokkurra Mið- og Austur-Evrópuríkja undir aðild að NATO, og þá jafnframt Atlantshafssamfélaginu, og sköpun vettvangs til að bregðast með samræmdum hætti við atburðum í Rússlandi. Ásamt tryggingunni fyrir áframhaldandi öryggi var þetta fullnægjandi svar við spurningunni „til hvers er NATO” í meira en áratug. Hins vegar verður að hafa hugfast að öll þrjú verkefnin voru beintengd heimsálfunni Evrópu og á þeim tíma lögðu Bandríkin enn áherslu á ástandið í evrópskum öryggismálum.
-Það var því miklu fremur heimsmyndin eftir 11. september en endalok kalda stríðsins sem vakti efasemdir um tilgang NATO. Þær efasendir vöknuðu með hernaðaraðgerðunum í Afganistan, þó þær stöfuðu ekki af neinum ágreiningi innan NATO. Þvert á móti vorum við, eins og dagblaðið Le Monde í Frakklandi orðaði það, „öll Ameríkanar” á þeim tíma. Vandamálið var miklu fremur tilfinning um að bandalagið skipti ekki lengur máli. Þegar tekið er mið af því að NATO hafði beitt 5. greininni í fyrsta sinn til að bregðast við 11. september fór allt tal Bandaríkjamanna um að „ætlunarverkið ákvarðaði samsetningu bandalagsins” fyrir brjóstið á mörgum fylgismönnum Atlantshafstengslanna í Evrópu. Það tók næstum tvö ár að fá NATO ríkin almennt til að helga sig starfinu í Afganistan. Það gerðist í kjölfarið á Íraksdeilunni og eftir djúpan ágreining bæði um hlutverk NATO í vörnum Tyrklands og lögmæti stríðsins sjálfs.
Bandalagið verður enn á ný að verða vettvangur opinskárra skoðanaskipta um helstu málefnin sem það ætlar að takast á við
Tónninn í skoðanaskiptunum hefur gerbreyst síðan þá. Hvorki stjórnvöld í Washington né í nokkru Evrópuríki vilja endurtaka reynslu síðustu tveggja til þriggja ára. Nýlegar heimsóknir George W. Bush, forseta, og Condoleezu Rice, utanríkisráðherra, til Evrópu – og hvernig tekið var á móti þeim – var til marks um gagnkvæman vilja til að sýna einingu og einbeittan vilja. En fyrir utan viljayfirlýsingar er nánari úfærsla á nýrri „samstöðu” óljós.
Að mínu áliti eru þau erfiðu úrlausnarefni sem við þurfum nú að takast á við tvíþætt. Í fyrsta lagi verðum við að ráðast í raunhæft mat á hlutverki bandalagsins við nýjar pólitískar aðstæður og í öðru lagi verðum við að endurvekja pólitíska umræðu í bandalaginu fremur en að leyfa því að koðna niður og verða lítið annað en hernaðarleg „verkfærakista”.
Upphafið að því að leggja mat á hlutverk NATO er að horfast í augu við að pólitískt landslag í Evrópu hefur gerbreyst. Í dag gegnir Evrópusambandið lykilhlutverki í alþjóðlegum öryggismálum eitt og óstutt. Raunar er afar metnaðarfullt Evrópusamband um þessar mundir að bæta hernaðarviðbúnaði í verkfærakistu sína til viðbótar við „mjúka máttinn” sem hún bjó yfir fyrir. Mörg kappræðan um Atlantshafstengslin í framtíðinni mun verða að eiga sér stað milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, einfaldlega vegna þess þar þarf að ræða málin á breiðari grunni en tök eru á innan hins klassískari öryggisvettvangs NATO. Mörg mikilvæg málefni sem eru á hinni alþjóðlegu verkefnaskrá nú – að bæla niður meintan áhuga Írana á að koma sér upp kjarnorkuvopnum, áform um að aflétta vopnasölubanninu af Kína og nauðsyn þess að hjálpa Afríku að komast út úr ýmsum flóknum kreppum – þarfnast marghliða nálgunar. Fylgjendur Atlantshafssamstarfsins ættu að hætta að rífa í hár sér út af því. Tilraunir til að beita NATO til þess að slæva pólitískan metnað Evrópusambandsins eru dæmdar til að mistakast. Rétta leiðin er að greiða fyrir pólitískri þróun Evrópusambandsins og móta um leið lifandi öryggissamstarf við NATO. Enn verður nóg af verkefnum fyrir NATO. Bandalagið er enn skynsamlegasti vettvangurinn fyrir jafnólík viðfangsefni og að samhæfa vopnabúnað og að standa fyrir stefnumótandi umræðu um sameiginleg úrlausnarefni í öryggismálum milli tveggja burðarása Vesturlanda. Bandalagið ætti að stefna að því að halda því hlutverki, og hafa hugfast að þetta er einmitt rétta framlag bandalagsins til víðtækara öryggisskipulags á Atlantshafssvæðinu.
Þetta kallar á „endurstjórnmálavæðingu” NATO. Bandalagið verður enn á ný að verða vettvangur opinskárra skoðanaskipta um helstu málefnin sem það ætlar sér að takast á við. Einlæg skoðanaskipti yfir Atlantshafið um hvernig bregðast skuli við hryðjuverkum eru t.d. bráðnauðsynleg einmitt vegna þess að bandalagsríkin hafa mismunandi sjónarmið um hvernig bregðast skuli við þessu sameiginlega en erfiða úrlausnarefni. NATO mun líklega einnig halda áfram að láta til sín taka í Afganistan og Kosovo og halda áfram að leggja til hernaðarmáttinn sem er grundvöllur fjölþjóðlegra friðunaraðgerða. Hvar skuli grípa til aðgerða, og hvernig, getur valdið deilum. Þess vegna þyrftu ákvarðanir að grundvallast á víðtækara pólitísku samkomulagi innan bandalagsins en raunin er nú. Eigi bandalagið jafnframt að vera hernaðarlegur burðarás í víðtækari, alþjóðlegum friðunaraðgerðum þarf það að standa í betri tengslum við almenn pólitísk ferli sem varða pólitíska framtíð á viðkomandi svæðum. Þetta kallar á að NATO verði pólitískara og að samstarf verði eflt við aðrar stofnanir, þ.á m. Sameinuðu þjóðirnar.
Vandamál NATO snýst ekki bara um að lifa af – enginn er í raun og veru að leggja til að það ætti að leggja niður – heldur að halda áfram að vera lykilþátttakandi og lykilvettvangur einmitt á því sviði sem það hefur sannað sig. Það mun samt einungis halda áfram að skila árangri ef bandalagsríkin þróa með sér sameiginlegan pólitískan skilning á hlutverki þess. Ekki er fyrir að fara neinum sameiginlegum óvini sem getur komið í stað ógnarinnar sem stafaði af kommúnismanum eða Sovétríkjunum. „Hryðjuverkastarfsemi” kemur þar ekki að gagni. Þess í stað er bandalagið í dag birtingarmynd áframhaldandi mikilvægis „Vesturlanda” í alþjóðlegum öryggismálum. Nú þegar pólitískur vettvangur umhverfis Atlantshafið hefur breyst megum við eiga von á frekari ágreiningi. Viðfangsefnið felst í því að láta ekki eins og ágreiningurinn sé ekki fyrir hendi, heldur ráðast beint til atlögu við hann.
Kveðja,
Espen
Ágæti Espen,
Fyrir aðeins tveimur árum, í aðdraganda Íraksstríðsins, stefndi í árekstur hjá NATO. Einn landahópur, undir forystu Breta og Bandaríkjamanna, ásakaði annan, undir forystu Frakklands og Þýskalands um að bregðast skuldbindingu sinni um sameiginlegar varnir, sem er hornsteinn bandalagsins. Málefnið, eins og menn muna, snerti varnir Tyrklands. Síðari hópurinn ásakaði þann fyrri um að eyðileggja grundvöllinn að sameiginlegu öryggi, sem er einmitt sá grunnur sem bandalagið var byggt á. Deiluefnið var auðvitað vilji þeirra til að heyja stríð án heimildar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Lífvænleiki bandalagsins og framtíð Atlantshafstengslanna var í húfi.
-Vissulega hefur NATO jafnað sig á þessari kreppu. Þegar komið var að leiðtogafundinum í Istanbúl í júlí árið 2004 höfðu sárin að mestu leyti gróið. Ólíkt flestum fyrri kreppum sem NATO hefur gengið gegnum hefur Íraksmálið ekki leitt af sér – að minnsta kosti ekki enn sem komið er – nýtt upphaf, eins og raunin var t.d. með Harmel skýrslunni eftir að Frakkland hafði dregið sig út úr sameinuðu hernaðarskipulagi NATO. Þess í stað er í dag eins og bandalagið eigi við eins konar blóðleysi að stríða. Einkennin eru öllum ljós. NATO hefur verið að berjast við að telja bandalagsríkin á að standa við skuldbindingar sínar um framlög til hermála, bæði hvað varðar alþjóðlegu öryggissveitirnar (ISAF) og þjálfun sveita Íraka. Hlutverk bandalagsins í átaksverkefninu í Mið-Austurlöndum og nágrenni er vart meira en slagorð. Loks, sem er e.t.v. alvarlegra, er bandalagið með orðum Gerhard Schröder, kanslara, ekki lengur „meginvettvangur” þar sem aðildarríkin „ræða og samhæfa stefnumið sín”.
Ef ekkert er að gert er hætt við að blóðleysið ágerist í eitthvað verra og leiði á síðari stigum til dauða. Þar sem enginn vill að bandalagið veslist upp – og síst af öllu Frakkar, sem eru eitt áhugasamasta aðildarríkið að því er varðar framlög til viðbragðssveitar NATO eða skipun háttsettra hershöfðingja í lykilstöður í herskipulaginu – þarf eitthvað að taka til bragðs.
Er þá aukin pólitísk umræða á borð við þá sem þú og aðrir leggja til rétta meðalið og mundi pólitískara hlutverk fyrir NATO hleypa nýju lífi í bandalagið? Þegar lesin er saga NATO mætti vel hugsa sér að þarna væri leið út úr ógöngunum. Á örlagastundum í fortíðinni hefur aukin pólitísk umræða innan NATO verið lausnin á bæði lasleika og kreppum. Auk Harmel framtaksins minnumst við Skýrslu vitringanna þriggja í kjölfar Súesdeilunnar 1956. Í báðum tilvikum snerist málið um að gera NATO „pólitískara” til þess að renna traustari stoðum undir veikburða lögmæti þess og styrkja innri samheldni.
Það var einmitt ekki fyrr en NATO skarst í leikinn í Bosníu og Herzegóvínu sem bandalagið tryggði sér tilkall til að gegna lykilhlutverki í öryggismálum á Evró-Atlantshafssvæðinu
Nær okkur í tímanum byggðist farsæl endurnýjun NATO á tíunda áratugnum á þeirri hugmynd að nú þegar Sovétógnin væri ekki lengur við lýði þyrfti bandalagið að verða pólitískara til þess að bæta upp fyrir skortinn á forsendum til þess að halda úti hernaðarbandalagi. Kjarni málsins er sá að þar sem NATO var ekki lengur þörf til að undirbúa varnir Evrópu réttlætti það áframhaldandi tilveru sína með því að taka á sig víðtækara hlutverk í Evrópskum öryggismálum og lagði þannig sitt af mörkum til að efla stöðugleikann í álfunni eftir kalda stríðið.
Þetta virtist virka og um miðjan tíunda áratuginn var NATO, sem margir höfðu gert ráð fyrir að myndi veslast smám saman upp eftir kalda stríðið, aftur farið að þrífast vel og búið að skipa sér sess sem hornsteinn í evrópskum öryggismálum. Samt er nauðsynlegt að skoða nánar hvað gerði þessa óvæntu endurlífgun mögulega. Þar til um haustið 1995 lék mikill vafi á gildi hinna „nýju” öryggisverkefna NATO og þar af leiðandi á framtíð þess sem lifandi bandalag í ljósi sundrungarinnar og aðgerðaleysisins gagnvart stríðunum í tengslum við upplausn Júgóslavíu. Það var einmitt ekki fyrr en NATO skarst í leikinn í Bosníu og Herzegóvínu og sendi síðan friðargæslusveit sína (IFOR) til að fylgjast með friðarferlinu sem bandalagið hafði tryggt sér tilkall til að gegna lykilhlutverki í öryggismálum á Evró-Atlantshafssvæðinu. Sú staða styrktist enn þremur árum seinna með íhlutuninni í Kosovo.
-Kjarni málsins er sá að mér virðist NATO ekki hafa tryggt sér framtíð fyrr en bandalagsríkin sýndu að í því væri enn þróttur sem hernaðarbandalag í nýju öryggisumhverfi, í verkefnum sem ekki heyra undir 5. greinina og eru utan hefðbundins varnarsvæðis. Ef NATO hefði ekki látið til sín taka í verki hefðu tilraunir til að hleypa í það nýjum lífskrafti á þeim tíma með „stjórnmálavæðingu” stofnunarinnar einfaldlega fætt af sér einhvers konar rabbstofu.
Vandamál NATO í dag er að gagnsemi þess, eða að minnsta kosti mikilvægi þess, einkum á hernaðarsviðinu, liggur ekki lengur á ljósu hjá aðildarríkjunum. Á því eru tvær skýringar. Sú fyrri er á engan hátt ný af nálinni. Bandaríkin líta ekki lengur á NATO sem fyrsta valkostinn til að annast hernaðaraðgerðir, jafnvel undir forystu Bandaríkjanna. Þetta hefur verið ljóst allt frá hernaðaraðgerðunum í Kosovo, en það var reynsla sem vakti ekki mikla hrifningu hjá bandaríska hernum. Að stjórnvöld í Washington skyldu hafna stuðningi herforingja bandalagsins í stríðinu í Afganistan haustið 2001 staðfesti þá stöðu mála.
Seinni þátturinn er hægt og sígandi að koma í ljós og stafar að miklu leyti af hinum fyrri. Evrópumenn eru æ tregari til þess að senda sveitir sínar til starfa innan skipulags þar sem Bandaríkjamenn hafa tögl og haldir en leggja varla til nokkurt lið sjálfir, eins og raunin er með alþjóðlegu öryggissveitirnar (ISAF) í Afganistan. Af því leiðir ákafi þeirra að styrkja Evrópusambandið sem hugsanlegan fyrsta kost í aðgerðum og taka forystuna í fyrrum júgóslavneska lýðveldinu Makedóníu*, í Bosníu og Herzegóvínu og fyrr eða síðar í Kosovo.
Ef núverandi þróun heldur áfram er hætt við að NATO verði umbúðir einar, því að það er ekki lengur í takti við tengslin yfir Atlantshafið eins og þeim er nú háttað, sem stafar af því að Bandaríkin hafa aðskilið sig frá Evrópu og Evrópu hefur hlaupið kapp í kinn í alþjóðlegum stjórnmálum og hermálum. Þetta væri auðvitað afar óheppilegt. Enn er þörf á NATO, þó ekki sé nema vegna þess að Bandaríkjamenn og Evrópubúar þurfa hvorir á öðrum að halda hernaðarlega. Enn þarf Evrópa á vernd Bandaríkjanna að halda, þó það sé ekki í eins miklum mæli og áður, og hún þarf bráðnauðsynlega á stuðningi Bandaríkjanna að halda við rekstur krefjandi hernaðaraðgerða, eins og dæmin sanna í Bosníu og Herzegóvínu samkvæmt Berlín-plús fyrirkomulaginu. Bandaríkin þurfa á herafla Evrópu að halda í friðargæsluverkefnum þar sem þau vilja síður binda herlið sitt, t.a.m. í alþjóðlegu öryggissveitunum í Afganistan (ISAF).
Niðurstaðan er að mínu mati einföld. Þó að NATO, í núverandi mynd, verði tæpast fýsilegur kostur fyrir aðila, hvorum megin Atlantshafsins sem þeir eru, er ennþá tækifæri og þörf til þess að umbreyta því í það sem við þörfnumst í raun og veru, þ.e.a.s. tæki til að viðhalda og styrkja hernaðartengslin milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Mér er fullljóst að til þess þarf gerbreyttan hugsunarhátt í bandalaginu. Ég er hins vegar sannfærður um að ef við gerum ekki gangskör að því að leita leiða til að laga NATO að raunverulegum núverandi tengslum ESB og Bandaríkjanna mun bandalagið einfaldlega visna með þeim hætti að Atlantshafssamfélagið í víðari skilningi bíði óbætanlegan skaða af. Málið snýst ekki um að stjórnmálavæða NATO, því það er lítið annað en innantómt slagorð nema við ráðumst að rótum vandans og gerum bandalagið, enn á ný, að mikilvægum vettvangi fyrir Bandaríkin og Evrópu til að samræma hernaðaráætlanir sínar. Þetta kallar á virk tengsl milli ESB og Bandaríkjanna, einkum á hernaðarsviðinu.
Kveðja,
Frédéric
Ágæti Frédéric,
Greining okkar bæði á nýliðinni sögu og ástandinu í dag er að verulegu leyti samhljóða. Við erum báðir þeirrar skoðunar að laga verði bandalagið að nýjum raunveruleika í tengslum ESB og Bandaríkjanna. Við erum einnig sammála um að NATO verði að halda áfram að líta á hernaðartengslin milli Evrópu og Bandaríkjanna sem hornsteininn að tilvistarrétti þess. Það er nú einu sinni svo að tæpast er hægt að halda úti hernaðarbandalagi án hernaðarlegra verkefna.
Það er hins vegar niðurstaðan sem við erum ósammála um: hvort „stjórnmálavæðing” sé leiðin að markinu. Þú virðist telja að það sé lítið annað en orðin tóm og það sem þurfi sé að Bandaríkin og Evrópa „samræmi hernaðaráætlanir sínar” og bandalagið verði „tæki til að viðhalda og styrkja hernaðartengslin milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna”.
Það sem ég er að halda fram er að ég tel að ekki sé hægt að halda uppi „hreinum” hernaðartengslum til frambúðar nema á sterkum pólitískum grunni – og að þessi pólitíski grunnur komi ekki af sjálfu sér. Við ættum að minnast þess að pólitísk samstaða yfir Atlantshafið skipti sköpum – þótt hún lægi oft ekki ljós fyrir – meðan á kalda stríðinu stóð. Bæði bandamenn í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku voru sammála um að halda þyrfti aftur af Sovétógninni, og báðir aðilar voru einnig sammála um að einbeittur vilji Bandaríkjanna til að styðja Evrópu stuðlaði að stöðugleika langt út fyrir mörk sameiginlegrar ógnar. Raunar ætti að skoða hina farsælu niðurstöðu samruna Evrópu, þ.e.a.s. Evrópusambandið, einmitt í þessu ljósi. Öryggissamstarfið yfir Atlantshafið hjálpaði til við að skapa skilyrði fyrir virkum efnahagslegum samruna Evrópu vegna þess að hægt var að skiptast á skoðunum um erfiðustu málefnin í pólitísku tilliti annars staðar. NATO gat einbeitt sér að hernaðarhlutverki sínu vegna þess að þar ríkti pólitísk samstaða frá upphafi, sem hélst meðan sameiginleg ógn var við lýði. Það sem undir býr og menn eru almennt sammála um verður svo augljóst að engin þörf er að tönnlast á því. Ef þessi sameiginlegi tilgangur hefði ekki búið undir, hefði NATO aldrei orðið til. Og jafnvel þegar menn greindi á um stefnumið í öryggismálum á tímum kalda stríðsins hélst pólitísk samheldni vegna þess að menn vissu af sameiginlegri ógn og sameiginlegum tilgangi.
NATO verður að skerpa á samspili stjórnmála og hermála hjá sér með þeim hætti að bæði bandamönnum og samstarfsríkjum finnist viðeigandi fyrir viðfangsefni nýrrar aldar
Í dag er ekki einungis kalda stríðið að baki, heldur einnig breytingarskeiðið eftir kalda stríðið. Það sem orðið hefur deginum ljósara á undanförnum árum er að ekki má taka samstöðu milli Evrópu og Bandaríkjanna sem sjálfsagðan hlut, og fortíðarþráin ein og sér mun ekki halda bandalaginu á floti lengi. Ef NATO á að lifa af – sem ég bæði vona og trúi að það geri – verður það að vera rétta svarið við úrlausnarefnum nútímans, en ekki fortíðarinnar.
Öll beiting hervalds verður ávallt, eins og Carl von Clausewitz orðaði það: „framhald stjórnmála eftir öðrum leiðum”. Þetta á einkum við þegar kemur að því að grípa inn í deilur sem ekki fela í sér neina grundvallarógn við tilveru okkar, heldur öllu fremur fjárfestingu til langs tíma í stöðugri heimsskipan. Sameiginlegar aðgerðir – á borð við þær sem nú eiga sér stað í Afganistan – verða að byggjast á pólitísku samkomulagi um það sem við viljum ná fram og þær verða að passa inn í heildarmynd. Á þessu sviði hefur NATO mikið fram að færa. Fyrir utan að leggja til herlið hefur það þróað kerfi til pólitískrar leiðsögu í hernaðarstarfinu og komið upp vettvangi þar sem unnt er að viðra gagnstæðar skoðanir og byggja upp einingu.
Á komandi árum ætti NATO að sýna að það sé annað og meira en „bandalag hinna viljugu”. Tilfallandi bandalög kunna að þykja góður kostur í augum þess sem fyrir þeim fer, að minnsta kosti meðan einhver vill vera með í för. Bandaríkin eru hins vegar að átta sig á því í Írak að þau geta ekki treyst því að menn skuldbindi hersveitir sínar til langs tíma. Þær koma og fara eftir pólitískum aðstæðum. Fyrir smærri þátttakendur eru slík bandalög erfið, því að utan um þau skortir venjulega pólitískt „jafnvægi” og því er eina leiðin til að láta í ljós ágreining hreinlega að draga sig út úr bandalaginu. Einkum fyrir smærri löndin eru fjölþjóðlegir samningar fýsilegri kostur þegar til lengri tíma er litið. NATO – vegna pólitískrar uppbyggingar og þeirrar staðreyndar að framkvæmdastjórinn og skrifstofuliðið kemur úr röðum borgara – getur lagt til pólitíska dómgreind og leiðsögn og getur skapað leið til að ná pólitískri tengingu milli hernaðar og þess sem honum er ætlað að koma til leiðar.
Þetta gerist ekki af sjálfu sér. NATO verður að skerpa á samspili stjórnmála og hermála hjá sér með þeim hætti að bæði bandamönnum og samstarfsríkjum finnist viðeigandi fyrir viðfangsefni nýrrar aldar. Aðeins þá verður unnt að sameina tiltæka hernaðargetu og aukna hæfni til að ná pólitískri samstöðu.
Kveðja,
Espen
Ágæti Espen,
Ég er sammála því að hernaðarleg tengsl milli Evrópu og Bandaríkjanna, sem endurnýjað NATO ætti að geta komið á, halda ekki nema á „sterkum pólitískum grunni”. Spurningin er þá bara hvers konar skipulag hentar best til að stuðla að pólitískri samstöðu? Meðan á kalda stríðinu stóð var NATO óvefengjanlega besti stofnanavettvangurinn vegna þess að fyrir hendi var skýr, sameiginleg ógn. NATO var með öðrum orðum pólitísk þungamiðja í krafti augljóss hernaðarlegs gildis.
Sú er ekki raunin nú. Þó að við hvorki getum né ættum algerlega að útiloka möguleikann á atburðarás þar sem við kynnum að þurfa að berjast sameinaðir við utanaðkomandi óvin sem ógnar tilvist okkar, getum við ekki lengur réttlætt tilvist NATO á grundvelli þess möguleika. Stríðið gegn hryðjuverkum getur með öðrum orðum ekki gegnt sama hlutverki og kalda stríðið. Eitt og sér getur það ekki verið sameiningaraflið sem heldur bandalagi vesturlanda saman, því að Bandaríkjamenn og Evrópumenn eru ekki endilega sammála um eðli hættunnar og um leiðir til þess að kljást við hana. Raunar eru þeir oft ósammála. Þetta er það sem kreppa bandalagsins hefur snúist um síðan 2001.
Stjórnmálavæðing NATO er lítið annað en innantómt slagorð nema við ráðumst að rótum vandans
Vissulega munu bandalagsríkin eflaust halda áfram að líta á friðargæslustarf á borð við alþjóðlegu öryggissveitirnar (ISAF) í Afganistan sem dæmi um það sem hernaðarhlutverk NATO ætti að snúast um í nánustu framtíð. Það af leiðandi er skynsamlegt að efla pólitísku víddina í slíkri starfsemi. Ég efast hins vegar stórlega um að einhvers konar friðargæsluhlutverk fyrir NATO, jafnvel á pólitískum forsendum, geti í sjálfu sér stuðlað að endurnýjun tengslanna yfir Atlantshafið.
Til þess að endurbyggja pólitískar stoðir bandalagsins ættum við að mínu mati að ráðast í tvö verkefni, sem eru miklu meira krefjandi. Í fyrsta lagi ættum við að reyna að ná samkomulagi um skilyrði fyrir valdbeitingu við aðstæður sem falla ekki undir réttinn til sjálfsvarna. Það var ágreiningur um réttmæti – eða lögmæti – fyrirbyggjandi hernaðaríhlutunar sem olli sundrunginni í bandalaginu vegna Íraks.
Í öðru lagi ættum við að reyna að móta samkomulag um leiðir og aðferðir til að breiða út lýðræði og réttarríki. Þó að við séum sammála um markmiðið höfum við ekki sameiginlega sýn á hvernig því skuli náð. Þar sem líklegt er að bæði Bandaríkjamenn og Evrópumenn verði áfram mjög uppteknir af þessu atriði, eins og nýliðnir atburðir í Mið-Austurlöndum benda til, er brýn þörf á samkomulagi um málið ef okkur er alvara í að endurheimta tilfinninguna um sameiginleg markmið í bandalaginu, eins og þú mælir réttilega með.
Okkur á ekki eftir að takast þetta með tilskipunum eða með því að gera „stjórnmálavæðingu” gamla NATO að dagsskipun. Þessu verður einungis áorkað með alvarlegum og djúpum skoðanaskiptum milli Ameríku og Evrópu. Nú þegar komið er fram á sjónarsviðið sameinað Evrópusamband, sem ekki er lengur hægt að horfa fram hjá, er raunin orðin sú að endurnýjun bandalagsins er ekki einungis háð þeirri forsendu að herstjórnkerfi NATO sé lagað að nýjum aðstæðum, heldur einnig þeirri forsendu að koma verður á beinum hernaðarlegum tengslum milli tveggja stærstu eininganna innan bandalagsins. Einungis með því að laga tilhögun tengslanna yfir Atlantshafið að þeim breytingum sem hafa orðið á eðli samskiptanna milli Ameríku og Evrópu munum við geta komið aftur á sameiginlegum tilgangi, sem er forsenda fyrir varanlegu bandalagi.
Kveðja,
Frédéric
Ágæti Frédéric,
-Ég hef haldið því fram frá upphafi að NATO eigi engan kost annan en að aðlagast hinum öru breytingum á pólitísku landslagi Evrópu. Þungamiðjan í þessari umbreytingu er tilurð Evrópusambandsins, sem verður sífellt samstæðari þátttakandi í alþjóðamálum. Það hefur þegar fest sig í sessi sem „borgaralegt” veldi og getur nú einnig státað af nokkurri hernaðargetu og viðbúnaði til stjórnunar á hættutímum og í Evrópsku öryggisstefnunni er að finna evrópskt svar við Þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Þessir tveir aðilar – Evrópusambandið og Bandaríkin – verða meginstólparnir tveir í fyrirbæri sem við getum enn talað um sem „Vesturlönd”.
Endurstjórnmálavæðing NATO felst í aukinni umræðu um nýjar ógnir, af því tagi sem nú þegar er að eiga sér stað innan NATO
Það sem ég á við er að með NATO eigum við nú þegar stofnun sem myndar pólitískan og hernaðarlegan ramma fyrir þetta umbreytta samstarf yfir Atlantshafið, sem einnig er valkostur við hin tilfallandi „bandalög hinna viljugu”. Ef NATO ætti að einblína eingöngu á hernaðarskipulag sitt mundi það fljótlega hrörna og verða lítið annað en staðlastofnun. Í mínum augum snýst endurnýjuð stjórnmálavæðing NATO frekar um það að fram fari innan bandalagsins sjálfs stefnumarkandi umræður um nýjar ógnir og það hlutverk sem bandalagið geti gegnt í friðargæslu- og friðunaraðgerðum. Ég vil sjá aðildarríkin taka þennan þátt stofnunarinnar mun alvarlegar en þau hafa gert á nýliðnum árum.
Kveðja,
Espen
Ágæti Espen,
Það er ekki mikið sem skilur okkur að og það gefur mér von um framtíð fyrir bandalagið. Þegar allt kemur til alls hafa föðurlönd okkar gegnum tíðina haft ólík sjónarmið um þetta mál. Eins og þú veist hafa Frakkar, allt frá því að de Gaulle hershöfðingi var við völd, gjarnan viljað greina milli bandalagsins sjálfs – en tilvera þess hefur aldrei átt undir högg að sækja í franskri stefnumótun – og stofnanauppbyggingu NATO – sem Frakkar hafa talið að þyrfti að bæta. Á tímum kalda stríðsins var erfitt fyrir aðra bandamenn að skilja þennan greinarmun, hvað þá heldur að sætta sig við hann. Hins vegar sýnist mér að sú sé ekki raunin lengur og að nú sé jafnvel enn meira vit í þessum greinarmun.
Mikilvægt er að breyta uppbyggingu bandalagsins til þess að umbreyta NATO í það sem í megindráttum ætti að vera tvíhliða evró-amerísk stofnun.
Í dag er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að byggja upp traust og sjálfbær tengsl yfir Atlantshafið, þó ekki væri nema vegna þess að ekki er lengur hægt að ganga að þeim vísum. Á sama tíma er mikilvægt að breyta uppbyggingu bandalagsins til þess að umbreyta NATO í það sem í megindráttum ætti að vera tvíhliða evró-amerísk stofnun. Þetta er leiðin til þess að viðhalda gildi NATO sem hernaðarbandalag og þannig varðveita tengslin milli Evrópu og Bandaríkjanna í stjórnmálum og öryggismálum til lengri tíma innan ramma Atlantshafstengslanna.
Kveðja,
Frédéric
* Tyrkland viðurkennir Lýðveldið Makedóníu undir stjórnarskrárbundnu heiti þess.