TUNGUMÁL
Sökum þýðingar birtist íslensk netútgáfa NATO Frétta u.þ.b. hálfum mánuði síðar en enska útgáfan.
UM NATO FRÉTTIR
BIRTINGARKVAÐIR
HÖFUNDARRÉTTAR-UPPLÝSINGAR
RITSTJÓRN
 RSS
SENDA ÞESSA GREIN TIL VINAR
GERAST ÁSKRIFANDI AÐ NATO FRÉTTUM
  

Hungraður maður er reiður maður

José María Sumpsi Viñas, aðstoðarframkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, lýsir því með hvaða hætti matarskortur gæti orðið öryggisvandamál í ljósi matvælakreppunnar sem er að bresta á.

Verið er að endurmeta stöðu matvælaframleiðslu heimsins þessa dagana. Uppþot og mótmæli í borgum allt frá Karíbahafinu til Austurlanda fjær gera deginum ljósara hversu hætt er við pólitískum óstöðugleika í kjölfar matvælakreppunnar.

Miklar og áður óþekktar verðhækkanir á matvöru og öðrum innflutningi til fátækustu ríkja heims eru staðreynd, ásamt því að matarbirgðir í þessum ríkjum minnka stöðugt. Þetta hefur skapað fjölmörg vandamál tengd pólitík, öryggismálum, mannúðarmálum, félagshagfræði og þróun – fyrir utan hina aðkallandi hungursneyð sem sums staðar fyrirfinnst.

Síðastliðnar vikur hefur athygli verið vakin á hversu alvarleg þessi vandamál eru og ýmsar tillögur að lausnum hafa verið settar fram.

Þegar tekið er tillit til hversu flókin vandamál er um að ræða, má ljóst vera að stjórnvöld standa frammi fyrir viðkvæmum línudansi þar sem bregðast verður við aðkallandi og knýjandi vandamálum en um leið þarf að taka sér tíma til að skilja til fullnustu og skilgreina vandamálin sem og mögulegar afleiðingar aðgerða stjórnvalda.

Í sumum tilvikum er þörf á skýrri sýn og samkomulagi innan alls kerfisins til að ná árangri. Við þurfum að endurmeta drifkraftana að baki framboðs og eftirspurnar sem knýr verðlagið upp á við, endurmeta áhrifin og mögulegar ógnir.

Hættulegustu og mest aðkallandi afleiðingar matarskortsins eru aukinn félagslegur og pólitískur óstöðugleiki í mörgum ríkjum.

Þetta ástand býður upp á ögrandi verkefni sem þegar eru fyrir hendi, en einnig sóknarfæri sem menn gera sér ekki ennþá grein fyrir.

Meðal helstu aðkallandi verkefna eru:

 • mótmæli og öryggisleysi tengd matarskortinum;
 • aukið öryggisleysi tengt matarskorti ásamt fleiri hungurtilfellum þar sem neyðaraðstoðar er þörf;
 • aukinn kostnaður vegna matvælainnflutnings, matargjafa og verkefna til aðstoðar við öflun matar og;
 • beiting verðstýringar, útflutningsbanns og afnáms innflutningstolla af hálfu innlendra ríkisstjórna.

Meðal mögulegra sóknarfæra eru:

 • hugsanlegur stuðningur við bændur;
 • nýsköpun og þróun í matargjafakerfum, og
 • áherslubreytingar í viðskiptum með landbúnaðarvörur.

Hættulegustu og mest aðkallandi afleiðingar matarskortsins eru aukinn félagslegur og pólitískur óstöðugleiki í mörgum ríkjum. Hættan er sérstaklega mikil í ríkjum þar sem hernaðarátökum er nýverið lokið, enda er þar víða viðkvæmt ástand með tilliti til öryggismála, pólitísks stöðugleika og hagþróunar.

Í sumum tilvikum gætu ógnir steðjað að aðgerðum til eflingar stöðugleika, friðargæsluliðar gætu orðið fyrir þrýstingi frá stjórnvöldum um að styðja aðgerðir til að hafa stjórn á óeirðum og starfsmenn alþjóðastofnana og aðstaða þeirra (t.d. vörugeymslur) gætu orðið skotmörk.

Ef vandinn vex eins og spáð hefur verið, getur vel komið til þess að aukaframlög vegna neyðaraðstoðar einnar vaxi í milljarða dala.

Brýnna aðgerða er þörf, alveg burtséð frá aðkallandi öryggisviðbrögðum vegna ástands eins og á Haítí. Meðal þeirra eru:

 • flokkun mismunandi tegunda óstöðugleika vegna matarskorts inn í forvarnarkerfi til að draga úr átökum;
 • samþætting matvælaöryggis inn í friðargæsluverkefni;
 • að útbúa viðbúnaðaráætlanir;
 • vöktun verðlags og markaða með landbúnaðarafurðir (sérstaklega í borgum); og
 • að meta með hvaða hætti stofnanir og friðargæsluverkefni geta betur höndlað fjöldauppþot.

Við gætum einnig skoðað beitingu öflugra hópa með getu og sérþekkingu á hvernig bregðast skuli við þessum flóknu viðburðum.

Öflun matvæla til neyðardreifingar er ekki aðeins aðkallandi, heldur sífellt dýrari – sem grefur undan alþjóðlegri aðstoð. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur, þegar þetta er ritað, farið fram á 750 milljón dala aukafjárveitingu til að standa að verkefnum sem þegar eru á áætlun fyrir árið 2008 - upphæð sem fer sífellt hækkandi. Þörf verður fyrir viðbótarfjárveitingar til matvælakaupa og flutninga frá ýmsum samtökum og stofnunum, þó ekki væri nema til að viðhalda núverandi magni aðstoðar.

Ef vandinn vex eins og spáð hefur verið, getur vel komið til þess að aukaframlög vegna neyðaraðstoðar einnar vaxi í milljarða dala. Ekki er ljóst hvaðan viðbótaraðstoð gæti komið, né heldur hvaða áhrif hún gæti haft á þörfina fyrir neyðaraðstoð. Fjölmargir sem nú þegar lifa við hungurmörk og treysta á utanaðkomandi matvælaaðstoð gætu orðið fyrir skerðingu eða niðurfellingu á aðstoð sinni. Veitendur aðstoðar þurfa að vera reiðubúnir til að veita umtalsverða aukaaðstoð og, í samvinnu við aðila sem starfa að neyðaraðstoð og mannúðarmálum, að takast á við alvarleg mál sem varða forgangsröðun.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna þurfa nauðsynlega að bæta þarfa- og veikleikagreiningu sína ásamt því að starfa með ríkisstjórnum að því að þróa skilvirk öryggisnet. Þau gætu verið í formi matarmiða eða peningayfirfærslna, skólamáltíða, atvinnu- eða næringarráðgjafar-verkefna og trygginga - eins lengi og þetta stuðlar að vernd fólks sem er í hættu.

Til skemmri eða lengri tíma litið þurfa fátækir framleiðendur í dreifbýli að fá aðstoð við að auka framleiðslu sína og við að grípa þau sóknarfæri sem hækkað afurðaverð hefur í för með sér. Kornframleiðsla ríkja með lágar þjóðartekjur – nema í Kína og Indlandi – minnkaði raunar um 2.2 prósent árið 2007, einmitt þegar verðlag á heimsmarkaði fór hækkandi. Uppskera í mörgum þessara ríkja heldur áfram að vera mun minni en annars staðar í heiminum. Þetta er vegna þess að þau nota minni áburð, tegundir sem gefa minna af sér, minni áveitur, nota síður eiturefni og ástunda minni skiptiræktun.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur þegar gripið til ráðstafana til að bregðast við hinum miklu verðhækkunum á matvöru. Í desember árið 2007 var sett af stað verkefni sem miðaði að því að styðja ríkisstjórnir í þeim ríkjum sem verst höfðu orðið úti til að auka framboð á landbúnaðarafurðum. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Alþjóðabankann, svæðisbundnar stofnanir, aðrar stofnanir með höfuðstöðvar í Róm og innlendar ríkisstjórnir í þeim tilgangi að skilgreina þörfina á aðkallandi fjárfestingu í landbúnaði.

Á sama hátt og þetta verkefni innifelur samstarf til að hjálpa bændum að framleiða það sem þeir vilja og þurfa, þá getur öryggissamfélagið unnið saman að öðrum sviðum til að tryggja að tekið sé á þessu vandamáli og komið í veg fyrir að það fari úr böndunum.

Með þessum hætti má koma í veg fyrir að matarskortur þróist úr því að vera meiriháttar mannúðarmál yfir í að verða alvarlegt öryggisvandamál.

José María Sumpsi Viñas

Spurt og svarað

Hve mikil hefur hækkun matarverðs verið?
Hvar hefur þetta áhrif á öryggismál?
Hvaða svæði hafa orðið verst úti?
Senda ábendingu:    DiggIt   MySpace   Facebook   Delicious   Permalink