Sjá heimasíðu NATO
Sjá heimasíðu NATO-frétta
      Þetta blað: Haust 2005 Eldri blöð  |  Tungumál
Sjá heimasíðu NATO
 Efnisyfirlit
 Inngangsorð
 Stutt ágrip
 Kappræða
 Viðtal
 Saga
 Frásagnir
 Greining
 Tölfræði
 Höfundar
 Ritaskrá
 Tenglar
 Næsta tölubla
Sjá heimasíðu NATO-frétta Tengiliður á ritstjórn / áskrift Prentvæn útgáfa

Senda þessa grein

Saga

Teningnum kastað

Ryan C. Hendrickson fer yfir atburðarásina sem leiddi til aðgerðarinnar Deliberate Force, fyrstu loftárása NATO í Bosníu og Herzegóvínu, og mikilvægi hennar nú, tíu árum síðar.


Áfangaskýrsla: Leighton W. Smith, aðmíráll og
yfirhershöfðingi bandalagsherjanna í Suður-Evrópu,
greinir frá tíðindum af Deliberate Force, fyrsta
flughernaðarleiðangri NATO. (© AFSOUTH)

Árla morguns þann 30. ágúst 1995 hófu flugvélar NATO röð af nákvæmnisárásum á valin skotmörk í Bosníu og Herzegóvínu sem Serbar höfðu hernumið. Þetta markaði upphaf Deliberate Force aðgerðarinnar, fyrstu flugherferðar NATO, sem stóð í tvær og hálfa viku, lagði samskiptanet Bosníuserba í rúst og batt enda á deilurnar um hvort NATO skyldi starfa „utan svæðis“, en það málefni hafði tröllriðið skoðanaskiptum bandalagsríkjanna um hlutverk NATO frá því að kalda stríðinu lauk.

Þó að Deliberate Force hafi verið ákaflega umdeild aðgerð á sínum tíma er nú orðið ljóst, áratug síðar, að þessi úthugsaða notkun flugheraflans átti úrslitaþátt í að binda enda á Bosníustríðið og hafði þannig í för með sér gífurlegar pólitískar afleiðingar og augljósan ávinning fyrir Bosníu og Herzegóvínu. Þar að auki má vera að Deliberate Force hafi átt meiri þátt í umbreytingu NATO eftir kalda stríðið en nokkur annar einstakur atburður, jafnvel þótt Allied Force aðgerðin, miklu langvinnari loftárásir bandalagsins í Kosovo árið 1999, hafi síðar yfirskyggt hana.

Þrátt fyrir mikilvægi Bosníu og Herzegóvínu fyrir NATO var bandalagið tregt til að ganga til liðs við þau alþjóðlegu öfl sem vildu binda enda á stríðið í fyrrum Júgóslavíu. Þegar ofbeldið braust út árið 1991 tóku fyrst Evrópusambandið og síðan Sameinuðu þjóðirnar frumkvæðið í að reyna að stöðva átökin og koma aftur á friði og stöðugleika. Á þeim tíma höfðu Bandaríkin nýlega leitt bandalag með samþykki Sþ í aðgerðum til þess að reka Íraska hermenn Saddams Husseins út úr Kúveit og mikil bjartsýni ríkti um getu Sameinuðu þjóðanna til að koma á „nýrri heimsskipan“.

Bosníustríðið var mikil lexía fyrir Sameinuðu þjóðirnar og allar alþjóðastofnanir sem komu að samningaumleitunum til að binda enda á deiluna. Friðargæslusveit Sþ (UNPROFOR) í fyrrum Júgóslavíu, sem hafði á að skipa 38.000 hermönnum þegar mest var, gegndi því hlutverki að veita þurfandi fólki mannúðaraðstoð og mynda „griðasvæði“ þar sem borgarar gætu verið óhultir. Hins vegar var ætlast til þess að sveitin væri hlutlaus í pólitísku tilliti og hún hafði ekki umboð til að framfylgja neinu samkomulagi þar sem ekkert samkomulag hafði náðst. Klemman sem friðargæslusveit Sþ (UNPROFOR) var í fólst í því að bláhúfur Sameinuðu þjóðanna voru „friðargæsluliðar án friðar til að gæta“.

Meðan friðargæslusveit Sþ var að leitast við að ná markmiðum sínum var NATO sjálft að takast á við endalok kalda stríðsins. Á leiðtogafundinum í Róm árið 1991 samþykktu leiðtogar NATO ríkjanna nýja varnarstefnu, sem jók umboð bandalagsins þannig að það tók ekki lengur aðeins til sameiginlegra varna heldur einnig til nýrra öryggisverkefna, þ.m.t. friðargæslu, aðgerða til forvarnar gegn átökum og stjórnar á hættutímum. Þannig beitti NATO takmörkuðum árásum gegn hernaðarskotmörkum Bosníuserba árið 1994 og á fyrri árshelmingi 1995 sem svar við brotum gegn ýmsum ályktunum öryggisráðs Sþ. Undir stjórn George Joulwan, yfirhershöfðingja NATO í Evrópu (SACEUR), aðstoðaði bandalagið einnig við að framfylgja vopnasölubanni sem lagt var á alla fyrrum Júgóslavíu og efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Serbíu og Montenegró.

Fyrstu þreifingar NATO í Bosníu og Herzegóvínu megnuðu ekki að breyta pólitískum raunveruleika á vettvangi og leiddu til þess að margir sérfæðingar höfðu uppi efasemdir um að bandalagið ætti sér nokkurn tilverurétt í öryggisumhverfinu eftir kalda stríðið. Margir höfðu sérstakar áhyggjur af hlutverki NATO á Balkanskaga í ljósi þeirra þjáninga sem fólk var að láta yfir sig ganga nánast í bakgarði NATO. Sama stefið var kveðið aftur og aftur, bæði meðal stuðningsmanna NATO og gagnrýnenda þess, að bandalagið þyrfti að „leggjast út“ eða „leggjast af“.

Heimspressan fjallaði um allar hliðar á deilunni og vaxandi óánægja var með smástíg og ófullnægjandi viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Þó að flestir hermenn Friðargæslusveitar Sþ hafi gegnt starfi sínu með sóma – reyndar týndu 167 lífi meðan á vettvangsverkefninu stóð – átti sveitin aldrei möguleika á því að hafa áhrif á framvindu átakanna og Bosníuserbar gátu haft tilburði Sþ að háði og spotti. Raunar höfðu bæði framkvæmdastjóri NATO, Willy Claes, og forveri hans, Manfred Wörner, uppi æ hreinskilningslegri ummæli um vanmátt Sameinuðu þjóðanna til að binda enda á deiluna og þörfina á því að NATO tæki að sér stærra hlutverk. Þrátt fyrir það gátu bandamenn sjálfir ekki byggt upp nauðsynlega pólitíska samstöðu til þess að beita sér af meiri krafti árið 1994 og á fyrri árshelmingi 1995 og héldu áfram að ræða hvað gera skyldi.

Aðgerðaleysi NATO stafaði að hluta til af samsetningu Friðargæslusveitar Sþ. Mörg bandalagsríki, þ.m.t. Kanada, Frakkland og Bretland, höfðu sent eigin friðargæsluliða á vettvang sem þátttakendur í Friðargæslusveit Sþ og óttuðust að öflugri aðgerðir gegn Bosníuserbum gætu leitt til hefndaraðgerða gegn hermönnum þeirra. Á sama tíma voru Bandaríkin, sem ekki höfðu hermenn á vettvangi, að berjast fyrir stefnu sinni sem fólst í „afnámi og atlögu“ – þ.e.a.s. að afnema vopnasölubannið gegn öllu svæðinu, sem bitnaði einkum á Bosníumúslimum, og ráðast til atlögu við skotmörk hjá Bosníuserbum úr lofti.

Vissulega voru Bandaríkjamenn áfram varfærnislegir í diplómatískum þrýstingi sínum. Fall 18 manna úr liði Bandaríkjamanna í umsátri í október 1993 í Mogadishu í Sómalíu, sem batt í raun enda á friðargæsluverkefni Sþ í Sómalíu, varpaði áfram dökkum skugga yfir alla stefnumótunarvinnu. Hátt settir embættismenn í Bandaríkjunum og hugmyndasmiðir í bandaríska varnarmálaráðuneytinu höfðu engan hug á að blanda sér í aðra illa skipulagða aðgerð með tilheyrandi hættu á mannfalli, meðan ekki var um beina þjóðaröryggishagsmuni að tefla. Auk þess áætluðu sérfræðingar hjá CIA að þurfa mundi þúsundir hermanna á jörðu niðri til að endurheimta friðinn.

Þáttaskil urðu við fjöldamorðin í Srebrenica um miðjan júlí 1995. Þetta var versta einstaka tilvikið um ódæðisverk í upplausnarstríðunum í Júgóslavíu og leiddi til dauða nálægt 8.000 karlmanna og drengja úr hópi Bosníumúslima. Það olli hneykslan hjá þjóðum heimsins og knúði yfirvöld í Washington til að beina NATO inn á nýja braut. Sagt er frá því í bók Ivo Daalders Getting to Dayton: The Making of America’s Bosnia Policy (Brookings Institution Press, 2000) að í hvíta húsinu í stjórnartíð Bill Clintons Bandaríkjaforseta hafi öryggisráðgjafinn Anthony Lake, sem hafði lengi barist fyrir öflugri viðbrögðum, skipað sér í fylkingarbrjóst í viðleitninni til þess að beina bandamönnum í nýja átt.

Bandaríkin voru ekki ein um að hvetja til nýrrar og öflugri nálgunar bandalagsríkjanna gagnvart Bosníustríðinu. Viðhorfin gagnvart Bosníuserbum höfðu verið að harðna áður en til fjöldamorðanna í Srebrenica kom, einkum eftir að friðargæsluliðar frá Sþ, sem margir hverjir voru Frakkar, voru teknir gíslingu í maí 1995. Þannig var Frakklandsforseti, Jacques Chirac, jafnhávær talsmaður þess að taka upp gerbreytta stefnu með aukinni íhlutun.

Stefnubreyting sem skipti sköpum og leit dagsins ljós í upphafi ágúst 1995 fólst í nýrri skipan á „tvöfalda lyklakerfinu“ sem hafði verið komið á fót árið 1993 til þess að stýra valdbeitingu af hálfu NATO. Hið nýja fyrirkomulag fólst í því að hernaðaraðgerðir á vegum NATO þyrftu að hljóta samþykki bæði hjá embættismönnum Sþ og NATO. Þar til í ágúst 1995 hafði Yasushi Akashi, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sþ í Júgóslavíu, lyklavöldin hjá Sameinuðu þjóðunum. Eftir atburðina í Srebenica voru lyklavöld Akashi færð í hendur hershöfðingja Friðargæslusveitar Sþ, franska hershöfðingjanum Bernard Janvier. Lyklavöldin hjá NATO voru í höndum Leighton W. Smith, aðmíráls, yfirhershöfðingja Suður-Evrópuherstjórnarinnar í Napólí.

Úthugsuð notkun flugheraflans átti úrslitaþátt í að binda enda á Bosníustríðið
Atburðurinn sem varð kveikjan að Deliberate Force aðgerðinni átti sér stað þann 28. ágúst 1995, þegar sprengja úr serbneskri sprengjuvörpu féll á markaðstorg í Sarajevo og drap 38 óbreytta borgara og slasaði 85 að auki. Janvier hershöfðingi var fjarstaddur á þeim tíma og breski undirhershöfðinginn Rubert Smith sneri lykli Sþ í samráði við Smith aðmírál og staðfesti þannig að Bosníuserbar hefðu enn á ný brotið gegn ályktun öryggisráðs Sþ og í þetta sinn mundi NATO bregðast við með valdbeitingu.

Deliberate Force aðgerðinni var hleypt af stokkunum um leið og síðustu friðargæsluliðar Sþ yfirgáfu landsvæði Bosníuserba. Stutt hlé varð á sprengjuárásunum vegna vopnahlés sem Janvier hershöfðingi samdi um hinn 1. september en þær hófust aftur árla morguns 5. september. Nær öll NATO ríkin, sem þá voru 16 talsins, lögðu sitt af mörkum til herferðarinnar, sem fól í sér alls 3515 árásarferðir þar sem varpað var 1026 sprengjum á 338 mismunandi skotmörk. Ekkert mannfall var hjá NATO, en frönsk Mirage 200K vél var reyndar skotin niður á fyrsta degi árásanna og áhöfnin tekin höndum af Bosníuserbum.

Af þeim fjölmörgu einstaklingum sem áttu þátt í Deliberate Force gegndi Willy Claes, framkvæmdastjóri, sérstaklega mikilvægu hlutverki bak við tjöldin. Þó að persónuleg pólitísk vandamál Claes í Belgíu hafi varpað skugga á arfleifð hans og neytt hann til að yfirgefa NATO eftir innan við eitt og hálft ár í embætti á hann mikinn heiður skilið fyrir að tryggja að bandalagið leiddi Deliberate Force aðgerðina farsællega til lykta.

Á stuttum starfsferli sínum sem framkvæmdastjóri NATO reyndist Claes vera staðfastur foringi sem var reiðubúinn að halda Atlantshafsráðinu á fundi svo klukkustundum skipti þar til unnt væri að ná samkomulagi, einkum í aðdraganda Deliberate Force . Samkvæmt frásögn Richard Holbrooke í bókinni To End A War (Random House, 1998) var Claes einnig virkur í stuðningi sínum við nafnana tvo þegar þeir sneru lyklum sínum þannig að hægt væri að ráðast í loftárásirnar án þess að ræða þyrfti málið frekar hjá bandalagsríkjunum. Þegar Janvier hershöfðingi gerði samkomulag um tímabundið vopnahlé við herstjórnendur Bosníuserba lagði Claes allnokkurn pólitískan þrýsting á hann, aðra embættismen Sþ og Atlantshafsráðið um að hefja loftárásir á ný, með þeim rökum að NATO yrði að sýna meiri festu til þess að breyta viðhorfum á vettvangi.

Tengsl Claes við Joulwan hershöfðingja áttu einnig mikilvægan þátt í því hversu vel loftárásirnar tókust. Þegar Joulwan hershöfðingi fór fram á pólitískan stuðning til þess að nota Tomahawk flugskeyti gegn hernaðarbækistöðvum Bosníuserba í Banja Luka studdi Claes við bakið á honum. Notkunin á Tomahawk flugskeytum árla morguns þann 10. september vakti nokkra gagnrýni, meira segja meðal sendifulltrúa NATO, en núorðið telja margir hernaðarsérfræðingar á borð við Robert C. Owen ofursta í bókinni Deliberate Force: A Case Study in Effective Air Campaigning (Air University Press, 2000) að hún hafi haft veruleg áhrif sem merki um staðfestu NATO og þannig sé líklegt að hún hafi hjálpað til við að binda enda á átökin.

Í kjölfar Deliberate Force reyndist Bosníuserbum sífellt erfiðara að halda þeim landsvæðum sem þeir höfðu ráðið yfir frá því á fyrstu mánuðum Bosníustríðsins andspænis samstilltum árásum Króata ásamt sveitum frá Bosníukróötum og Bosníumúslimum. Það varð til þess að þeir voru viljugri en þeir höfðu verið fyrr í átökunum til að semja um stríðslok í viðræðum sem hófust í Dayton í Ohio þann 1. nóvember. Deliberate Force hjálpaði þannig til við að greiða götuna fyrir Dayton friðarsamkomulagið, sem reyndist farsæll grundvöllur fyrir þann stjórnunarramma sem enn þann dag í dag er stuðst við í Bosníu og Herzegóvínu.

Þrátt fyrir að næstum áratugur sé liðinn frá því að Dayton friðarsamkomulagið gekk í gildi hefur enn ekki tekist að leysa deiluna í Bosníu og Herzegóvínu og enn er friðarferlið ekki orðið sjálfbært. Meira en 7000 hermenn, sem flestir hafa verið á vettvangi síðan í desember 2004 á vegum Evrópusambandsins, eru enn í landinu og alþjóðlegir stjórnendur halda áfram að gegna íhlutunarhlutverki í pólitísku lífi í Bosníu og taka oft fram fyrir hendurnar á innlendum embættismönnum. Engu að síður tókst með Dayton friðarsamkomulaginu að binda enda á blóðugustu átök í Evrópu frá því í seinni heimsstyrjöldinni sem höfðu kostað meira en 100.000 mannslíf á undangengnum fjórum árum. Einnig gafst Bosníumönnum tækifæri til að endurreisa land sitt og skapa sér betri framtíð.

Deliberate Force hjálpaði einnig til við að endurheimta trúverðugleika bæði NATO og alþjóðasamfélagsins almennt. Með hernaðaríhlutun í Bosníu og Herzegóvínu hafði bandalagið tekið afgerandi skref út fyrir svæði sitt, þ.e.a.s. út fyrir landamörk bandamanna. Þar að auki sýndi NATO að það væri bæði fært um að hafa umsjón með farsælli fjölþjóðlegri hernaðaraðgerð og beita valdi til þess að ná fram markmiðum sem ekki heyra undir fimmtu greinina, þ.e.a.s. markmiðum sem ekki falla undir sameiginlegar varnir.

Samkvæmt skilmálum Dayton friðarsamkomulagsins lét NATO til sín taka í friðargæslu í fyrsta sinn. Bandalagið stýrði 60.000 manna friðargæslusveit, IFOR, til þess að sjá til þess að hernaðarþættir friðarsamkomulagsins héldu og tryggja að ríkið félli ekki aftur í sama stríðsfarveginn. Þar að auki hafði vettvangsverkefnið í Bosníu ýmsan annan ávinning í för með sér og má þar nefna að u.þ.b. 2000 rússneskir hermenn og foringjar hlutu þjálfun til að starfa innan vébanda stofnana undir stjórn NATO. Þótt slíkt hefði virst óhugsandi fimm árum áður unnu þessir hermenn hlið við hlið með jafningjum sínum frá NATO næstu sjö árin.

Deliberate Force var einnig undanfari miklu almennari þátttöku og skuldbindingar af hálfu NATO á Balkanskaga. Árið 1999 beitti NATO aftur valdi með góðum árangri gegn Slobodan Milosevic og herjum hans með 78 daga loftárásum til þess að stöðva þjóðernishreinsanir í Kosovo. Í kjölfar þeirra árása var stofnað og sent á vettvang annað friðargæslulið undir forystu NATO, KFOR, sem enn er á svæðinu. Árið 2001 hlutaðist NATO til í fyrrum júgóslavneska lýðveldinu Makedóníu* í forvarnaskyni til þess að afstýra öðru stríði og koma aftur á friði og öryggi á svæðinu.

Þó að það hafi tekið bandalagsríkin allt of langan tíma að komast að nauðsynlegu pólitísku samkomulagi um að grípa á árangursríkan hátt inn í atburðarásina í Bosníu og Herzegóvínu tókst því, um leið og það var búið að ákveða að ráðast að rótum vandans, að binda skjótan enda á ofbeldið og síðan að þróa leiðir til að treysta friðinn í sessi. Þannig var Deliberate Force boðberi nýrra tíma hjá NATO og vísirinn að afar fjölbreyttum verkefnum bandalagsins sem nú standa yfir og ekki heyra undir 5. greinina, heldur færa NATO langt út fyrir upphaflegt hlutverk sitt sem bandalag um sameiginlegar varnir.


Ryan C. Hendrickson er lektor í stjórnmálafræði við Eastern Illinois háskólann, og höfundur bókar sem er að koma út: „Diplomacy and War at NATO: The Secretary General and Military Action After the Cold War“ (University of Missouri Press).

...top...

* Tyrkland viðurkennir Lýðveldið Makedóníu undir stjórnarskrárbundnu heiti þess.