Sjá heimasíðu NATO
Sjá heimasíðu NATO-frétta
      Þetta blað: Haust 2005 Eldri blöð  |  Tungumál
Sjá heimasíðu NATO
 Efnisyfirlit
 Inngangsorð
 Stutt ágrip
 Kappræða
 Viðtal
 Saga
 Frásagnir
 Greining
 Tölfræði
 Höfundar
 Ritaskrá
 Tenglar
 Næsta tölubla
Sjá heimasíðu NATO-frétta Tengiliður á ritstjórn / áskrift Prentvæn útgáfa

Senda þessa grein

Baráttan gegn hryðjuverkum á Miðjarðarhafssvæðinu


Sjipp og hoj: Á hverjum degi eru verslunarskip sem eru
að sigla um Miðjarðarhafið „kölluð upp“ af eftirlitssveitum
NATO í lofti og á legi. (© AFSOUTH)

Roberto Cesaretti, aðstoðaraðmíráll, skoðar hvernig NATO hefur unnið gegn hryðjuverkum á Miðjarðarhafinu frá því í október 2001.

Á undanförnum fjórum árum hefur fyrsta aðgerðin sem NATO hefur nokkru sinni ráðist í samkvæmt ákvæðum 5. greinarinnar um sameiginlegar varnir þróast úr litlum leiðangri á mikilvægu hafsvæði yfir í víðtæka starfsemi gegn hryðjuverkum, sem stöðugt lagar sig að nýjum aðstæðum um allt Miðjarðarhafssvæðið. Meðan á þessu hefur staðið hefur bandalagið stuðlað að friði, stöðugleika og öryggi á hernaðarlega mikilvægu svæði, aflað sér ómetanlegrar reynslu í íhlutunaraðgerðum á sjó og þróað æ skilvirkari ferli til njósna og upplýsingaskipta í tengslum við baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

Fastafloti NATO á Miðjarðarhafi tók sér stöðu á austanverðu Miðjarðarhafi þann 6. október 2001, degi áður en Bandaríkjamenn hleyptu af stokkunum aðgerðinni Operation Enduring Freedom til þess að hrekja Talíbana og al Qaida út úr Afghanistan. Þessi ráðstöfun, sem ráðist var í að beiðni Bandaríkjamanna eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september og beitingu NATO á 5. greininni daginn eftir, miðaði að því að mynda sýnilegt afl til fælingar og eftirlits á hernaðarlega mikilvægu alþjóðlegu hafsvæði á ögurstundu.

Á árunum sem síðan eru liðin hefur aðgerðin, sem síðar hlaut nafnið Active Endeavour, orðið æ margbrotnari eftir því sem bandalagið hefur mótað betur hlutverk sitt gegn hryðjuverkum og dregið lærdóm af reynslunni sem safnast hefur meðan á aðgerðinni hefur staðið. Þannig hefur umboð Active Endeavour verið endurskoðað með reglubundnum hætti og leiðangurinn og liðsaflinn lagaður að aðstæðum til þess að mynda skilvirka vörn gegn hryðjuverkum um allt Miðjarðarhafið.

Í febrúar 2003 var verksviðið breikkað með því að bæta við það fylgdarþjónustu við kaupskip frá aðildarríkjum bandalagsins gegnum Gíbraltarsund. Þetta var varúðarráðstöfun sem gripið var til á grundvelli upplýsinga sem bentu til þess að skip sem færu um þetta þrönga sund væru hugsanleg skotmörk hryðjuverkamanna. Þessari fylgd var síðan hætt í maí 2004 vegna þess að beiðnum hafði fækkað, en grípa má til hennar á ný hvenær sem er.

Í apríl 2003 jók NATO umfang Active Endeavour enn með því að bæta við eftirlitsferðum um borð í skip með heimild skipstjórnenda og heimalanda skipanna í samræmi við alþjóðalög. Í mars 2004 stækkaði síðan NATO starfsvettvang Active Endeavour þannig að hann næði til alls Miðjarðarhafsins. Hinn 15. september 2005 höfðu verið „kölluð upp“ 69 000 skip og af þeim farið um borð í 95. Þar að auki hafði 488 verslunarskipum verið fylgt gegnum Gíbraltarsund.

Nýtt mynstur í aðgerðum

Í október 2004 tók NATO upp nýtt mynstur í aðgerðum sínum. Frá þeim tíma hefur kastljósinu verið beint að því að safna saman og fara gegnum upplýsingar og stunda njósnir til þess að geta stungið út ferðir tiltekinna skipa sem fylgjast þyrfti betur með. Þannig er nú mögulegt að senda á vettvang skipasveitir í viðbragðsskyni til þess að sinna tilteknum verkefnum á borð við að leita uppi og fara um borð í skip. Nýja starfsmynstrið gengur út á fyrirbyggjandi aðgerðir. Ennfremur er unnt að bæta við mannafla og búnaði á álagstímum. Á þeim stundum slást viðbótarsveitir, t.d. deild úr fastaflota viðbragðssveitar NATO, í lið með Endeavour viðbragðshópnum til þess að umsvifin á svæðinu verði sýnilegri og eftirlitsgetan aukist.

Nánar tiltekið lætur Active Endeavour nú til sín taka á fjórum eftirfarandi sviðum. Unnið er að því að hjálpa til við að hindra og trufla allar aðgerðir til stuðnings hryðjuverkum á sjó eða frá sjó; að hafa eftirlit með þröngum siglingaleiðum, þ.e.a.s. mikilvægustu sundum og höfnum á Miðjarðarhafssvæðinu, með því að láta sérfræðinga úr einni af fastasveitum NATO í tundurduflavörnum slæða siglingaleiðir; að veita tilteknum skipum fylgd gegnum Gíbraltarsund þegar nauðsyn krefur; og að efla starfið sem þegar fer fram innan vébanda Miðjarðarhafssamráðsins og annarra áætlana NATO til að stuðla að tvíhliða og fjölþjóðlegum samskiptum.

Öllum stundum eru sveitir NATO sem helgaðar eru Active Endeavour á Miðjarðarhafinu að safna upplýsingum og leggja mat á ástandið í nágrenninu. Umsvif þessara sveita á svæðinu eru áberandi og þau valda því að unnt er að bregðast hratt við ef þörf krefur.

Frá höfuðstöðvum flotadeildar NATO í Napólí (CC-MAR í NAPÓLÍ) er aðgerðum stýrt gegnum Stjórnstöð flotaaðgerða sem starfar allan sólarhringinn. Stjórnstöðin, sem er nátengd innlendum stofnunum ýmissa NATO ríkja og skiptist á upplýsingum við þær, er staðsett í næsta nágrenni við Njósna- og upplýsingamiðstöð sjóhers NATO. Önnur mikilvæg upplýsingalind er Sameiginlega upplýsinga- og greiningarstöðin (JIAC). Hún er byggð upp sem söfnunarstöð þar sem safnað er saman öllum fáanlegum upplýsingum og þær bornar saman, greindar og þeim síðan miðlað áfram þannig að viðeigandi herstjórnir geti nýtt þær í starfi sínu. Hún er til húsa hjá Yfirstjórn sameinaðs herafla NATO í Napólí og fylgist með á öllum verksviðum heraflans. Saman leggja þessar stofnanir til upplýsingar og greiningar sem gera mér, sem herstjórnanda Active Endeavour, kleift að nýta takmörkuð aðföng á eins skilvirkan hátt og kostur er.

Það eitt að vera sýnilegur á staðnum á mikinn þátt í því að viðhalda öryggi á sjó. Eftirlitsferðir um Miðjarðarhafið eru farnar á freigátum og korvettum sem bandalagsríkin hafa sérstaklega helgað Active Endeavour að eigin frumkvæði. Þær njóta stuðnings tveggja hraðsveita úr sjóher bandalagsins, ef og þegar þörf krefur. Fyrir utan þessar ofansjávarsveitir stunda kafbátar viðbótareftirlit með því að fylgjast svo lítið beri á með allri grunsamlegri hegðun á tilteknum svæðum. Flugvélar til sjóeftirlits gera einnig kleift að fylgjast með stórum svæðum, og notaðir eru ýmiss konar skynjarar til að finna og flokka skip og aðra hluti sem kalla á nánari athugun.

Að því er varðar flutninga treystir Active Endeavour í miklum mæli á aðstoð bandalagsríkjanna við Miðjarðarhafið og notfærir sér í því skyni tvær bækistöðvar – Souda í Grikklandi og Aksaz í Tyrklandi – ásamt öðrum höfnum bandamanna á Miðjarðarhafinu.

Starfsemin í reynd

Á hverjum degi eru „kölluð upp“ verslunarskip sem eru að sigla um Miðjarðarhafið, en með því er átt við að eftirlitssveitir NATO í lofti og á legi hafi samband við þau og leggi fyrir yfirmenn þeirra spurningar. Þeir eru beðnir um að segja á sér deili og í hvaða erindagerðum þeir séu. Þessum upplýsingum er síðan komið bæði til CC MAR í Napólí og Skipamiðstöðvar NATO í Northwood í Englandi. Ef eitthvað virðist óvenjulegt eða grunsamlegt gætu sveitir með 15 til 20 sérþjálfuðum starfsmönnum farið um borð í skipið til þess að skoða skjöl þess og farm. Ef trúverðugar njósnir eða sterkar sannanir benda til hvers kyns starfsemi sem tengist hryðjuverkum er viðbragðshópur Endeavour aðgerðarinnar tilbúinn að mæta á vettvang og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir samkvæmt umboði Atlantshafsráðsins.

Reynslan sem NATO hefur aflað sér í Active Endeavour og öðrum íhlutunaraðgerðum á sjó hefur skapað bandalaginu áður óþekkta sérþekkingu á þessu sviði

Eftirlitsferðir um borð í skip fara fram bæði með samþykki heimalands og skipstjóra skipsins. Niðurstöðurnar eru síðan metnar hjá CC MAR í Napolí. Ef eitthvað misjafnt kemur í ljós, og þá ekkert endilega tengt hryðjuverkum, er það tilkynnt til viðeigandi löggæslustofnana í næstu viðkomuhöfn skipsins, svo fremi sem í gildi séu samskiptareglur í viðkomandi landi um slíkt. Grunsamlegu skipi er síðan fylgt eftir þar til stofnun sem málið heyrir undir hefur gert viðeigandi ráðstafanir, eða það fer inn í landhelgi einhvers ríkis á leiðinni til hafnar. Ef ekki fæst leyfi til að fara um borð í skip gerir NATO allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að það sé skoðað um leið og það fer inn í landhelgi einhvers NATO ríkis.

CC MAR í Napólí vinnur náið með innlendum yfirvöldum bandalagsríkjanna og á beina samvinnu við flota NATO sem starfar á Miðjarðarhafi. Best er að taka dæmi til þess að lýsa hugsanlegum ávinningi af slíku samstarfi. Í júní 2003 tilkynnti suðrænt land að skip hefði uppi einhverja grunsamlega háttsemi. CC MAR í Napólí lét þessar upplýsingar berast áfram til þess að sem flestir vissu af málinu og gætu búið sig undir frekari aðgerðir af hálfu NATO eða innlendra yfirvalda ef til þeirra kæmi. Í kjölfarið gat landhelgisgæsla eins bandalagsríkis notað upplýsingarnar þegar sama skipið sást athafna sig innan landhelgi þess og innlend yfirvöld ákváðu að rannsaka málið nánar.

Með því að hafa herlið tiltækt á sjónum gefst NATO færi á að bregðast við margs konar aðstæðum og hættuástandi, jafnframt því sem unnið er gegn hryðjuverkum. Þarna er meðal annars átt við mannúðarverkefni, leitar- og björgunaraðgerðir og neyðarhjálp. Þannig björguðu skip og þyrlur frá NATO 84 óbreyttum borgurum af löskuðum olíuborpalli í stormi og miklum sjó í desember 2001. Og í janúar 2002 komu skip og þyrlur NATO 254 farþegum í lífshættu til bjargar á sökkvandi skipi á austurhluta Miðjarðarhafsins undan ströndum Krítar. Þyrlur fluttu farþegana úr skipinu og gert var við skipsskrokkinn á sjó áður en skipið var dregið til hafnar.

Á leiðtogafundi NATO í júní 2004 í Istanbúl ákvað bandalagið að efla Active Endeavour með því að bjóða samstarfsríkjum NATO þátttöku, þ.m.t. ríkjunum í Miðjarðarhafssamráðinu. Öll boð um stuðning, þ.m.t. frá öðrum áhugasömum löndum, eru nú til athugunar. Rússar og Úkraínumenn buðu t.d. stuðning sinn árið 2004 og sérfræðingahópar frá báðum aðilum vinna nú að því að flétta rússneskar og úkraínskar sveitir inn í starfið árið 2006.

Þrjú ríki í Miðjarðarhafssamráðinu – Alsír, Ísrael og Marokkó – og þrjú samstarfsríki – Króatía, Georgía og Svíþjóð – hafa einnig lýst yfir vilja til að taka þátt í aðgerðinni. Framlag hvers ríkis verður sniðið eftir sérstöðu þess og valinn verður besti kosturinn í hverju tilviki á grundvelli þeirra boða sem berast og miðað við þarfir verkefnisins.

Bætt upplýsingaskipti

NATO er einnig að gera tilraunir með netkerfi sem gerir öllum Miðjarðarhafsríkjunum kleift að skiptast á upplýsingum um kaupskipaumferðina á þessu innhafi. Þegar það hefur verið samþykkt og tekið í gagnið batnar skilningur okkar á umfangi ólöglegrar starfsemi og þar með geta okkar til að hafa hemil á henni. Sú mynd sem þannig fæst af umferð kaupskipa á Miðjarðarhafinu ætti að vera hjálpleg fyrir löggæslustofnanir, og einnig sveitir NATO á alþjóðlegum hafsvæðum, til þess að bregðast af festu við vandamálum sem upp koma.

Í þessu samhengi hefur NATO einnig mikinn hug á að fá liðveislu frá fleiri strandríkjum Miðjarðarhafs sem standa utan bandalagsins. Auk þess sem slík framlög auka skilvirkni Active Endeavour á öllu ábyrgðarsvæði aðgerðarinnar með því að efla samvinnu og upplýsingaskipti minnka þau þörfina á að binda sérstakan herafla og búnað við þetta verkefni.

Í gegnum tíðina hefur starfsemi Active Endeavour æ meira markast af upplýsingaskiptum og sameiginlegum njósnum, sem felast í því að bandalagsríkin og strandríki Miðjarðarhafs skiptast á upplýsingum sem safnað er á sjó. Þau upplýsingaskipti sem þegar hefur verið komið á mynda traustan grunn sem unnt verður að byggja frekar á í framtíðinni. Markmiðið er að þróa miklu skilvirkari upplýsingasöfnun og greiningarkerfi og að breyta eðli starfseminnar í þá veru að ekki sé einungis sóttur stuðningur í upplýsingar heldur knýi upplýsingaöflunin sjálf starfsemina áfram.

Helsti farvegurinn til þess að koma þessu á verður Sameiginlega upplýsinga- og greiningarmiðstöðin (JIAC) og markmiðið sem haft verður að leiðarljósi er að stuðla að sameiginlegri stefnu í öflun og miðlun upplýsinga, að veita greiningar- og viðvörunarþjónustu og gefa ráð um liðsskipan og útbúnað. Með stofnun JIAC er ráðgert að hvetja til sem mestra upplýsingaskipta og tryggja að upplýsingar sem JIAC sendir frá sér berist tímanlega til þeirra ríkja eða stofnana sem líklegust eru til að geta haft af þeim gagn. JIAC ætti að stuðla að auknum krafti bæði í viðleitni NATO og einstakra bandalagsríkja til að veita nothæfar upplýsingar sem eru gagnlegar í baráttunni gegn óstöðugleikaþáttum á borð við hryðjuverkastarfsemi, skipulagða glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna á svæðinu.

Reynslan sem NATO hefur aflað sér í Active Endeavour og öðrum íhlutunaraðgerðum á sjó hefur skapað bandalaginu áður óþekkta sérþekkingu á þessu sviði. Þessi sérþekking getur komið að góðum notum í alþjóðlegri viðleitni á breiðari grundvelli í baráttunni gegn hryðjuverkum, og þá sérstaklega útbreiðslu og smygli á gereyðingarvopnum. Þetta hefur leitt til þess að löndin sem þátt taka í átaksverkefninu gegn útbreiðslu gereyðingarvopna (Proliferation Security Initiative – PSI), samstarfi undir forystu Bandaríkjamanna sem miðar að því að hefta flutning hættulegrar tækni til óæskilegra ríkja og samtaka, eru nú að reyna að draga lærdóm af starfsemi NATO á sjó.

Active Endeavour hefur reynst gagnlegt tæki í baráttunni gegn hryðjuverkum á og frá sjó á Miðjarðarhafi. Með áframhaldandi samstarfi við stofnanir hers og borgara í öllum löndunum umhverfis Miðjarðarhafið mun sá dagur koma að hlutverk NATO verði einungis að veita nauðsynlega samhæfingu í almennri nálgun bæði gagnvart hryðjuverkum og allri ólöglegri starfsemi almennt á svæðinu. Þegar komið hefur verið á skilvirkum tengslum og viðeigandi samningar hafa verið gerðir til þess að gera innlendum yfirvöldum kleift að bregðast við vísbendingum sem vekja grunsemdir ætti smám saman að komast fastara snið á starfsemi Active Endeavour, með þátttöku bæði bandamanna og samstarfsríkja þeirra.

Roberto Cesaretti, aðstoðaraðmíráll, er yfirmaður Active Endeavour aðgerðarinnar.

...top...